Fjölmenningarlegt skólastarf

Fræðslufundur fyrir grunnskólakennara var haldinn mánudaginn 18. september 2017 í Bratta (Menntavísindasvið HÍ, Stakkahlíð) og hjá Reykjavíkurborg þann 19. september. Erindi fluttu:

Erindi 1: Jim McLucas – Hvað þarf til að foreldrar og börn af erlendu bergi verði virk í skólasamfélaginu? Í fyrirlestrinum kynnti Jim daglegt skólastarf í grunnskólum (primary schools) sem starfræktir eru í East-London á vegum Boyle sjóðsins. Skólarnir hafa þau einkenni að flestir nemendur (um 99%) eru innflytjendur (af fyrstu eða annarri kynslóð) og innan við 1% nemenda eru „Englendingar“. Jim kynnti daglega starfshætti og áherslur í skólunum sem m.a. snúast um fjölmenningarlegar kynningar (á siðum, trúarbrögðum), heimsóknir (t.d. í trúarstofnanir eins og kirkjur, hof og moskur), gildum sem ríkja í skólastarfinu, venjum (t.d. viðurkenningar, hátíðir, foreldrasamstarf) og kennsluna sem fram fer á ensku eingöngu sem tungumál skólans þótt nemendur geti tjáð sig sín á milli á hvaða tungumáli sem er.

Upptaka af fyrirlestri Jim – með táknmálstúlkun (væntanlegt fljótlega).

 

Erindi 2: Hermína Gunnþórsdóttir – Nemendur og foreldrar af erlendum uppruna í íslenskum grunnskólum: Áskoranir og tækifæri. Hermína kynnti sjónarmið og ekki síst rannsókn sem unnin var með erlenda foreldra nemenda í grunnskólum á Akureyri. Í meginatriðum eru það sjónarmið erlendra foreldra að þeir eiga erfitt með að skilja hvernig íslenski grunnskólinn virkar (hann virkar eiginlega metnaðarlaus, gerir engar kröfur til nemenda og erfitt er að átta sig á hvað nemendur eiga að læra í öllum þessum einstaklingsbundnu áherslum og heimanám varla til) og hvernig hægt sé að afla upplýsinga um það sem er í gangi. Enþeir sjá um leið að börnum sínum líður vel í skólanum, kennarinn er vinur þeirra, þeir hafa allir „rödd“ í þessu lýðræðisumhverfi sem íslenski grunnskólinn er.

Upptaka af fyrirlestri Hermínu – með táknmálstúlkun (væntanlegt fljótlega).

 

Fræðslan var endurtekin fyrir skólastjórnendur og kennsluráðgjafa þriðjudaginn 19. september en þó með aðeins öðrum áherslum. Sömu glærur og upptökur eiga þó við hvoru tveggja.