Ráðstefna á vegum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Rannsóknastofu í fjölmenningarfræðum haldin föstudaginn 10. mars 2017 kl. 13-18 í Bratta (Stakkahlíð, Menntavísindasvið HÍ)
13:00 Setning.
Ráðstefnustjóri: Gunnar J. Gunnarsson, prófessor við HÍ.
Kór Kársnesskóla syngur.
13:15 Aðalerindi I: Hanna Ragnarsdóttir, prófessor við HÍ – Farsælt skólastarf með ungum innflytjendum á Norðurlöndunum
Í erindinu verður fjallað um rannsókn sem gerð var árin 2013-2015 og sem ber heitið Learning Spaces for Inclusion and Social Justice: Success Stories from Immigrant Students and School Communities in Four Nordic Countries. Íslenska heitið er Námsrými menntunar án aðgreiningar og félagslegs réttlætis: Sögur um velgengni nemenda af erlendum uppruna og skóla á fjórum Norðurlöndum. Meginmarkmið verkefnisins var að öðlast skilning á reynslu nemenda af erlendum uppruna í leik-, grunn- og framhaldsskólum í Finnlandi, á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð sem átt hafa náms- og félagslegri velgengni að fagna og að kanna hvernig félagslegt réttlæti birtist í skólastarfi og öðru námsrými sem byggir á margbreytileika og hefur jafnrétti að leiðarljósi. Rannsóknin náði til 27 skóla í löndunum fjórum. Fjallað verður í stuttu máli um umgjörð verkefnisins á Norðurlöndunum, fræðilegan bakgrunn, aðdraganda verkefnisins og meginniðurstöður frá öllum skólastigunum. Niðurstöðurnar leiða í ljós fjölda áhugaverðra þátta í skólastarfi í löndunum fjórum. Ýmsir þættir eru áþekkir milli landanna og innan þeirra, en einnig er að finna marga ólíka fleti á skólastarfinu. Loks verður fjallað í stuttu máli um hvernig nýta má niðurstöður rannsóknarinnar í þróun skóla á Norðurlöndunum.
14:00 Aðalerindi II: Björg Sigríður Hermannsdóttir ráðgjafi hjá Forvörnum ehf. og sálfræðingur hjá National Health Service í London – Fjölbreytileiki í íslenskum skólum: Líðan kennara og annars starfsfólks
Kennarar og starfsfólk í skólum sinna lykilhlutverkum við að stuðla að samheldnu samfélagi þar sem gagnkvæmur skilningur ríkir meðal fólks með ólíkar skoðanir og bakgrunn. Það er okkur öllum í hag að skólastarfsfólki líði vel í vinnunni og hafi tök á að mæta daglegum áskorunum án þess að upplifa langvarandi streitu og vanlíðan. Í fyrirlestrinum verður farið yfir ýmis atriði sem geta haft áhrif á líðan í starfi, svo sem raunhæf markmið og æðruleysi, túlkun á hegðun annarra og sveigjanleika í krefjandi aðstæðum. Einnig verður rætt um mikilvægi sjálfskönnunar í starfi með fjölbreyttu fólki.
14:45 KAFFIHLÉ
15:00 Vinnustofur I: (Kennslustofur)
Vinnustofa 1: Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við HÍ – Viðhorf og samskipti
Hægt er að greina hópa eftir samþykki jafningja og í ljós hefur komið að börn af erlendum uppruna eru í aukinni hættu á að lenda í vandræðum í jafningjasamskiptum. Þá hafa málörðugleikar oft á tíðum neikvæð áhrif á samskipti barnanna við jafningja sem og hina fullorðnu. Mikilvægt er að leita leiða til vinna gegn þessari þróun. Forvarnarverkefnið Allir vinir en ein slík leið en verkefnið er samvinnuverkefni leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila, ásamt því að foreldrasamstarf er mikilvægur þáttur. Á vinnustofunni verður rætt um hvað hægt er að gera til að koma í veg fyrir vandræði barna af erlendum uppruna í jafningjasamskiptum. Fjallað verður um hagnýtar lausnir og standa vonir til að þátttakendur deili einnig af eigin reynslu.
Vinnustofa 2: Kristín R. Vilhjálmsdóttir, kennari og verkefnastjóri- Menningarmót – fljúgandi teppi
Menningarmótsverkefnið er þverfagleg aðferð, hugsuð til þess að varpa ljósi á styrkleika og fjölbreytta menningarheima nemenda. Í ferlinu er unnið með menningarhugtakið í víðum skilningi og útfrá forsendum þátttakenda. Kristín R. Vilhjálmsdóttir, sem er kennari og verkefnastjóri fjölmenningar hjá Borgarbókasafninu, er hugmyndasmiður verkefnisins sem varð til í kennslustofu hennar í Danmörku og hefur það verið þróað áfram á Íslandi síðan 2008. Kristín hefur leiðbeint við að innleiða verkefnið í fjölmörgum skólum í Reykjavík og er það meðal annars að finna í fjölmenningarstefnu skóla – og frístundasviðs ”Heimurinn er hér” sem leið til að vinna með fjölbreytta menningu í kennslu. Það eru níu Menningarmótsskólar í Reykjavík. www.menningarmot.is.
Vinnustofa 3: Anna Katarzyna Wozniczka, doktorsnemi við HÍ Samstarf við fjölskyldur í fjölmenningarlegu skólastarfi
Í erindinu mun Anna Katarzyna Wozniczka, doktorsnemi við Menntavísindasvið HÍ, fjalla um þátttöku foreldra af erlendum uppruna í skólastarfi og samvinnu heimila og skóla í fjölmenningarsamfélagi. Rætt verður um mikilvægi tengsla milli fjölskyldna og skólans og um áskoranir og leiðir fyrir kennara til að virkja alla foreldra. Erindið er byggt á rannsóknum sem Anna hefur tekið þátt í og á eigin reynslu af starfi við innflytjendur á Íslandi.
Vinnustofa 4: Guðlaug Snorradóttir, deildarstjóri og Donata Honkowicz-Bukowska, grunnskólakennari – Fjölmenningarlegur skólabragur; móttaka og aðlögun nemenda
Kl. 16.15 Vinnustofur II: (Kennslustofur)
Vinnustofa 5: Björg Sigríður Hermannsdóttir ráðgjafi hjá Forvörnum ehf. og sálfræðingur hjá National Health Service í London – Sjálfskönnun – Lífstíðarverkefni
Hver eru viðbrögð okkar í krefjandi aðstæðum? Hvernig líður okkur þegar allar leiðir virðast upp í móti? Hvernig hefur fyrri reynsla, viðhorf okkar og túlkun á hegðun annarra áhrif á upplifun okkar í starfi? Á vinnustofunni fá þátttakendur tækifæri til að skoða samspil eigin hugsana, tilfinninga og viðbragða í ýmsum aðstæðum og ræða hvernig hægt er að nýta sjálfskönnun til að finna nýjar lausnir á gömlum flækjum. Þátttakendur verða hvattir til að hugleiða efni vinnustofunnar í ljósi eigin reynslu og taka virkan þátt í umræðum.
Vinnustofa 6: Hafdís Guðjónsdóttir, prófessor við HÍ Menningarviðbragðssnjöll kennsla
Fjallað verður um kennslu fjölbreyttra nemendahópa sem byggir á auðlindum nemenda og kennara og hefur félagslegt réttlæti að markmiði.
Vinnustofa 7: Sigríður Ólafsdóttir, nýdoktor við HÍ – Íslenskukennsla – móðurmálskennsla – virkt tvítyngi
Fjallað verður um árangursríkar leiðir til eflingar hærra stigs orðaforða sem rannsóknir sýna að liggur til grundvallar lesskilningi og þar með námsárangri.
Vinnustofa 8: Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir, skólastjóri Fellaskóla- Foreldrasamstarf í fjölbreyttum nemendahópi
Reynsla Fellaskóla; hvað hefur virkað vel í foreldrasamstarfi, hverjar eru áskoranirnar og hvert skal stefna til framtíðar.
17:15 Léttar veitingar